151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

698. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Efnislega held ég að við séum bara á svipuðum stað í þessum efnum. Ég vildi þó koma með eina stutta ábendingu. Af því að hv. þingmaður vék að því að nauðsynlegt væri að hafa upplýsingar um umfang þessara aðgerða o.s.frv., þá eru þær birtar og uppfærðar reglulega á vef Stjórnarráðsins og fjármálaráðuneytisins um Covid-aðgerðir svokallaðar. Ég hygg að framsetning þeirra tölulegu upplýsinga sem þar eru sundurgreindar eftir þeim stuðningsaðgerðum sem gripið hefur verið til, hvort heldur það eru hlutastörf, viðspyrnustyrkir, tekjustyrkir, lokunarstyrkir o.s.frv., sé til mikillar fyrirmyndar. Þessar upplýsingar eru uppfærðar reglulega eins og ég segi. Mér þótti bara rétt, herra forseti, að vekja athygli á þessu fyrst þingmaðurinn vék að því.

Hitt er hins vegar rétt að þegar fram líða stundir og við erum farin að sjá betur til lands og það er komið ágætt eða sæmilega eðlilegt ástand hér þá er okkur nauðsynlegt að leggja mat á árangur þeirra aðgerða sem ráðist hefur verið í, bæði í heild en líka einstakra aðgerða. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er verkefni sem við þurfum að ráðast í á komandi mánuðum.