151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

almenn hegningarlög.

773. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd allsherjar- og menntamálanefndar, allrar og óskiptrar, fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, sem fjallar um opinbera saksókn. Breytingartillagan felst í því í 1. gr. að á eftir „232. gr.“ í 1. tölulið 242. gr. laganna komi: 232. gr. a. Í 2. gr. er lagt til að lög þessi öðlist þegar gildi.

Þetta mál er þannig vaxið að XXV. kafli almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Í 242. gr. laganna er talið upp hvaða brot samkvæmt þeim kafla sæti opinberri saksókn. Við setningu laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 5/2021, láðist að bæta 232. gr. a, um umsáturseinelti, við upptalningu í 1. tölulið 242. gr. almennra hegningarlaga. Það er nauðsynlegt að bregðast við þessum annmarka og tryggja að slík brot sæti opinberri saksókn enda var ætlunin með framangreindum lögum að þessi brot lúti ekki reglum um einkarefsiréttarmál.

Í frumvarpi þessu felast engin álitaefni, hvorki varðandi samræmi við stjórnarskrá né alþjóðlegar skuldbindingar. Þá hefur frumvarpið engan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.