151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

ástandið á Gaza.

[13:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Við hv. þingmaður erum algerlega sammála um að þetta er skelfilegt ástand. Eins og hv. þingmaður kom inn á þá hafa ríflega 200 manns látið lífið Palestínu megin, töluvert færri Ísraels megin, eða u.þ.b. tíu, samkvæmt fréttum þaðan. Fórnarlömbin í þessum árásum eru almennir borgarar, konur og börn. Það liggur algjörlega klárt fyrir af hálfu íslenskra stjórnvalda að þessar aðgerðir eru ólögmætar, þær brjóta í bága við alþjóðalög, alþjóðlegan mannúðarrétt og við höfum lýst þeirri afstöðu okkar. Hæstv. utanríkisráðherra átti símafund með utanríkisráðherra Noregs nú um helgina, en Noregur á sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem þessi mál hafa verið til umræðu. Okkar afstaða er algjörlega skýr: Það á að virða alþjóðalög og árásir óbreyttra borgara eru algerlega óásættanlegar. Við höfum líka minnt á það að Ísland hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu og lausn á þessum átökum verður að byggjast á tveggja ríkja lausn. Fyrir liggur að það er afstaða íslenskra stjórnvalda.

Hv. þingmaður segir: Það þarf samstöðu þjóða. Ég held að við getum verið sammála um það. Þetta er eitt af þeim málum þar sem við höfum séð ýmsa reyna að leita lausna en ekki tekist. En ég mun í öllu falli nýta tækifærið nú þegar ég funda með utanríkisráðherra Bandaríkjanna á morgun og utanríkisráðherra Rússlands á fimmtudaginn og taka upp þessi mál og hvetja þessi ríki til að beita sér á alþjóðavettvangi til þess að ná fram friðsamlegri lausn á þessum málum.