151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

Myndlistaskólinn í Reykjavík.

[13:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er alveg ljóst að við höfum lagt mikla áherslu á menningu og menntun allt þetta kjörtímabil. Við höfum séð aukningu á framhaldsskólastiginu og háskólastiginu. Við höfum séð aukningu varðandi rannsóknir og þróun og höfum lagt mikið á okkur til að tryggja að hér sé hágæðamenntun alls staðar í landinu.

Ég tek sérstaklega fram að Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur staðið sig alveg gríðarlega vel. Við höfum verið að gera samninga við Myndlistaskólann, til að mynda varðandi það að fatlaðir einstaklingar geti komið inn í skólann, og höfum verið að efla hann eins og við mögulega getum. Við höfum auðvitað alltaf til skoðunar þegar við erum að skoða næstu fjárlög hvernig þeim fjárveitingum er háttað. En ég vil bara ítreka við hv. þingmann að við höfum lagt mikla áherslu á menntun og menningu í gegnum alla farsóttina, haldið þeirri áherslu gangandi eins og við mögulega getum og við munum halda áfram að sinna menntun á framhaldsskólastiginu og auka við hana.