151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

jarðalög.

375. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á jarðalögum nr. 81/2004, um einföldun regluverks, vernd landbúnaðarlands, upplýsingaskyldu o.fl.., frá meiri hluta atvinnuveganefndar. Við kölluðum þetta mál inn á milli 2. og 3. umr. Síðan þá hefur verið fjallað um málið og fengnir gestir frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Skipulagsstofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Auk þess hafa líka komið á fund nefndarinnar fulltrúar frá Landgræðslunni og nokkrir fasteignasalar til að fjalla um málið.

„Nefndinni barst framhaldsumsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem gerð var athugasemd við álit meiri hluta nefndarinnar, sem afgreitt var til 2. umr., þar sem sagði að ákvæði jarðalaga fælu nú þegar í sér skyldu til að flokka landbúnaðarland. Telur sambandið að hér sé um nýja skyldu að ræða sem ekki komi skýrt fram í gildandi lögum, hvorki skipulagslögum né jarðalögum. Er nánari grein gerð fyrir þessu í minnisblaði sem fylgir framhaldsumsögninni. Við meðferð málsins fyrir nefndinni benti ráðuneytið á ákvæði 4. mgr. 6. gr. jarðalaga þar sem segir að við mat sveitarfélaga á því hvort afla skuli leyfis ráðherra til lausnar lands úr landbúnaðarnotum þegar land er minna en 5 hektarar að flatarmáli skuli annars vegar taka mið af flokkun landbúnaðarlands í aðalskipulagi og hins vegar stefnu stjórnvalda um flokkun landbúnaðarlands. Þá sé í 2. mgr. 55. gr. laganna mælt fyrir um að ráðherra sé heimilt að gefa út leiðbeiningar um hvernig skuli flokka landbúnaðarland í aðalskipulagi. Jafnframt hafi Skipulagsstofnun bent á að skyldu til að flokka landbúnaðarland leiði af landsskipulagsstefnu og sé sveitarfélögum leiðbeint um þetta við undirbúning skipulagsáætlana, eftir því sem við á. Einnig sé nú til að dreifa reynslu af flokkun sem þessari í allnokkrum sveitarfélögum. Nýútgefnar leiðbeiningar um hvernig skuli standa að flokkun landbúnaðarlands geti einnig styrkt þá framkvæmd.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að mikilvægt væri að samræma og undirbúa betur framkvæmd leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands í því skyni að vel tækist til við flokkunina og unnt yrði eftir mætti að draga úr kostnaði við þennan þátt skipulagsgerðar. Rætt var hvernig ríkisstofnanir, bæði Skipulagsstofnun, fagstofnanir landbúnaðarins og einkum Landgræðsla ríkisins, sem býr yfir mikilli þekkingu á jarðvegsmálum og kortagerð, gætu auðveldað sveitarfélögum þessa vinnu. Meiri hlutinn hvatti umhverfis- og auðlindaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti til að ráðast þegar í vinnu við að bregðast við þessum sjónarmiðum í samstarfi við yfirvöld skipulagsmála. Er nefndinni kunnugt um að sú vinna sé þegar hafin og í trausti þess að úr henni muni greiðast og með vísan til umfjöllunar í áliti meiri hluta nefndarinnar við 2. umr. telur meiri hlutinn ekki ástæðu til breytinga á frumvarpinu að þessu leyti fyrir 3. umr.

Breytingartillaga meiri hlutans.

Sala á uppgræddu landi og söluverð.

Samkvæmt ábúðarkerfinu hvílir sú skylda á ríkinu að kaupa eignir og endurbætur ábúanda á viðkomandi ábúðarjörð á sérstöku matsverði, ákveði ábúandi að bregða búi, sem getur numið mun hærri fjárhæð en raunverulegt markaðsverð. Endurkaup ríkisins á eignum jarða hafa því í mörgum tilvikum numið hærri fjárhæð en samanlögðu virði hinnar seldu jarðar og þeirra eigna sem á henni eru við sölu á almennum markaði. Þá hafa tekjur ríkisins af ábúðarkerfinu ekki staðið undir kostnaði við það. Að mati meiri hlutans er afar mikilvægt að byggð haldist á sem flestum jörðum í sveitum landsins og að hentugar bújarðir í eigu ríkisins verði áfram nýttar til landbúnaðar eða annarrar atvinnustarfsemi eins og kostur er. Sala til núverandi ábúenda á ríkisjörðum í samræmi við þær heimildir sem eru í jarðalögum er ein leið til þess að tryggja áframhaldandi nýtingu á bújörðum. Einnig er eðlilegt að stjórnvöld leiti leiða til að hvetja ábúendur til að kaupa ábúðarjarðir sínar séu ekki til staðar sérstök sjónarmið sem kalla á að viðkomandi land verði áfram í eigu ríkissjóðs. Með þessu er tryggt að áfram verði búið á jörðunum og áhætta ríkisins jafnframt takmörkuð.

Samkvæmt 37. gr. jarðalaga er söluverð almennra ríkisjarða metið af matsaðilum þar sem virði þeirra tekur mið af söluvirði sambærilegra jarða á svipuðu landsvæði. Aðstæður við einstök ábúendakaup geta verið mjög mismunandi en stjórnvöld ættu þrátt fyrir það að leita sanngjarnra og hagkvæmra leiða fyrir alla hlutaðeigandi til að auðvelda ábúendum að kaupa ábúðarjarðir sínar. Undanfarin ár hefur borið á því að landeigendur óski eftir því að eignast aftur uppgræðsluland sem Sandgræðsla ríkisins, forveri Landgræðslunnar, eignaðist á árum áður. Komið hefur í ljós að núgildandi ákvæði jarðalaga um mat á söluverðmæti uppgræðslulands til núverandi eigenda upprunajarða hafa reynst óþarflega flókin og erfið í framkvæmd. Meiri hlutinn leggur því til breytingar á því hvernig söluverð þessara landsvæða er ákvarðað.

Annars vegar leggur meiri hlutinn til breytingu á 1. málsl. 2. mgr. 37. gr. jarðalaga sem felur í sér að við sölu á uppgræddu landi til landeiganda, sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru fyrir beitingu kaupréttar í jarðalögum, skuli miða við markaðsverð sambærilegs lands. Viðmiðun um markaðsverð er þá til viðbótar við þá aðferðafræði sem er nú þegar í lögunum um að sérstakt samkomulag sé gert sem taki mið af því gjaldi sem kom fyrir landið við afsal til ríkisins og því sem Landgræðslan eða Sandgræðslan kostaði til uppgræðslu þess. Meiri hlutinn leggur til þessa breytingu þar sem kostnaður við uppgræðslu þessara landsvæða hefur verið talinn umtalsverður í mörgum tilvikum og í reynd mun hærri en talið er samsvara markaðsvirði nefndra svæða nú. Því megi álykta að gildandi ákvæði sé ekki til þess fallið að auðvelda sölu viðkomandi svæða til fyrri eigenda.

Hins vegar leggur meiri hlutinn til að við 37. gr. jarðalaga verði aukið nýrri málsgrein er tekur til ákvörðunar um söluverð. Þar er lagt til að heimilt verði að miða söluverð við meðalhektaraverð á hálfgrónu landi, sem telst hagstæðara en markaðsverð. Heimildin verði bundin því skilyrði að landið verði tekið undir landbúnaðarnot og notkun landsins ekki breytt næstu tuttugu ár í stað tíu ára, líkt og kveðið er á um í 36. gr. a í jarðalögum að því er snertir kauprétt á uppgræddu landi. Meiri hlutinn telur rétt að taka fram að samkvæmt þessu er miðað við að seld uppgræðslulönd verði nýtt fyrir hefðbundinn landbúnað, þ.e. framleiðslu á búvöru, einkum búrekstur með áherslu á búfénað, matvæla- og fóðurframleiðslu og tekur hektaraverð í greininni mið af því. Ekki sé hér gert ráð fyrir því að hægt sé að taka landið undir önnur not eins og frístundabyggð eða iðnaðar- eða orkuframleiðslu. Þá verði kvöð um landbúnaðarnotkun þinglýst á hið selda uppgræðsluland og verði þar nánari grein gerð fyrir þeim takmörkunum sem munu gilda um nýtingu landsins og meðferð þess. Meiri hlutinn bendir í því samhengi á að í 22. gr. laga um landgræðslu kemur nú þegar fram að Landgræðslan skuli fyrir sölu á uppgræddu landi setja reglur um meðferð svæðis þannig að meðferð landsins sé ávallt sjálfbær og að þessum reglum um meðferð og nýtingu skuli þinglýst á viðkomandi landsvæði.

Meiri hlutinn áréttar að tilgangurinn með þessari breytingu er fyrst og fremst sá að gefa aðilum kost á að eignast aftur uppgræðsluland sem afsalað var til ríkisins til að stuðla að því að byggð haldist á sem flestum jörðum í sveitum landsins og að landspildur sem henta til landbúnaðar standi til boða undir slíka nýtingu.

Aðrar breytingartillögur meiri hlutans eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.“

Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu sem felur það í sér sem ég hef farið yfir.

Undir þetta nefndarálit rita hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson.