151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

störf þingsins.

[13:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að örorkubætur hækka um 3,6% og það er áætlun miðað við meðaltalshækkun launa samkvæmt töxtum á árinu 2021. En hitt er síðan, og það hefur m.a. Þroskahjálp ítrekað bent á og Öryrkjabandalagið, að frítekjumark atvinnutekna er óbreytt í krónum talið tíunda árið í röð þrátt fyrir að stjórnvöld séu sífellt í orði að hvetja öryrkja til þátttöku á vinnumarkaði. Taxtar lægstu launa hækka umtalsvert meira en örorkubætur. Bilið á milli eykst og leiðir til meiri gliðnunar á milli kjara þessara tveggja hópa. Þroskahjálp hefur sent frá sér ályktun og gerði það í október á síðastliðnu ári þar sem stjórn samtakanna lýsti yfir miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið og fjármálaáætlun, þar sjáist ekki nokkur merki þess að ætlunin sé að bæta hag þess hóps sem býr við verstu kjörin í íslensku samfélagi, fatlaðs fólks sem þarf að reiða sig á örorkulífeyri til framfærslu alla ævi vegna fötlunar eða fárra tækifæra á mjög ósveigjanlegum vinnumarkaði. Það er verið að hvetja fólk til að vinna en það fær síðan ekki opnun til svigrúms. Það er ekki þannig að þessi hópur muni hafa foreldra út allt lífið sem munu sjá til þess að þau muni ekki skorta eitt eða neitt. Við eigum að vera með þannig öryggisnet, virðulegi forseti, að hugsað sé um okkar veikustu bræður og systur.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a.: „Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla.“ Ég vona svo heitt og innilega að ríkisstjórnarflokkarnir, meirihlutaflokkarnir hér, sem eru að möndla núna á síðustu dögum þingsins um það hvernig fjármálaáætlun eigi að líta út, taki sérstaklega tillit til þess hóps (Forseti hringir.) sem ég hef verið að nefna hér þegar þeir spila út sínum síðustu tillögum.