151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Ég held að ég geti tekið undir ræðu hennar í langflestum ef ekki öllum tilfellum. Þetta var mjög góð og þörf að ræða inn í þessa umræðu. Ég hef reyndar saknað þess, herra forseti, að ekki séu fleiri svona ræður í umræðu um þetta mál. Mér hefur fundist eins og flokkur hv. þingmanns hafi einhvern veginn ætlað að sitja þetta af sér þar til núna og ég er þakklátur fyrir að þingmaðurinn komi upp og haldi þessa góðu ræðu. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvað verði um málið og hvort það sé einfaldlega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að semja um að það fari hér í gegn, hæfilega margir geti flutt svona fínar ræður eins og hv. þingmaður en málið verði samt samþykkt. Það kemur allt í ljós.

Nú hefur komið fram að hugsunin er að þetta sé tímabundið, þ.e. að styrkurinn eða það að setja einkarekna fjölmiðla á ríkisspenann sé tímabundið. Ég spyr þingmanninn: Hvaða líkur eru á að þetta sé tímabundin ráðstöfun? Hvaða líkur eru á því að það verði tekið af aftur? Ég heyrði ekki betur en að komið hafi fram í ræðu formanns allsherjar- og menntamálanefndar hér áðan að þetta væri tímabundin ráðstöfun. Ef það er þannig, hvaða líkur eru á að það verði tekið af? Erum við að horfa fram á að eitthvert annars konar kerfi verði tekið upp sem miði jafnframt að því að halda áfram að skerða ekki hár á höfði, ef það má orða það þannig, Ríkisútvarpsins? Það er augljóslega vandinn, kannski ekki eini vandinn, auðvitað eru erlendu efnisveiturnar líka ákveðinn vandi en stærsti vandinn á Íslandi gagnvart einkareknu fjölmiðlunum er þetta ríkisútvarp sem hefur nánast óheftan aðgang að fjármunum, fær jafnvel að skila tapi eins og á síðasta ári, 200 milljónir held ég í tap. Ég spyr hv. þingmann: Eru einhverjar líkur á að þegar búið er að setja þessa styrki á þá sé hægt að taka þá af?