151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:50]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég get ekki alveg áttað mig á því hvernig hægt er að takmarka aðgengi að auglýsingamarkaði en það getur vel verið að það sé hægt. Sérstaða Ríkisútvarpsins er gríðarleg, m.a. út af því að það eru einhvers staðar um 2 milljarðar sem þau fá út úr auglýsingamarkaði og síðan um 5 milljarðar frá hinu opinbera. Svo að því sé haldið til haga er tilfinning mín til Ríkisútvarpsins mjög hlý, Ríkisútvarpið hefur mikið menningarlegt gildi í mínum huga og geymir mikið af fróðleik frá fyrri tíð og allt það. En það eru bara uppi breyttir tímar og allt aðrar aðstæður heldur en voru bara fyrir örfáum árum síðan. Mér finnst allt of mikið jaml, japl og fuður í gangi þegar við erum að tala um þann vanda sem við erum í í jafnréttisbaráttu fjölmiðla. Ég vil bara leyfa mér að orða það þannig. Þess vegna endurtek ég í raun og veru spurninguna: Hvað sæi þingmaðurinn best að gera í stöðunni í dag svo að eitthvert gagn væri að? Ég tók eftir því í ræðu þingmannsins að hún talaði um að þessir styrkir kæmu einhvern veginn að gagni en samt sem áður ekki. Er þingmaðurinn með eitthvert svar fyrir mig til að gefa mér smá nesti um hvað hún teldi skynsamlegastu skrefin til að taka á þessu? Ef þingmaðurinn væri ráðherra gæti hún kannski komið með gott svar?