151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[18:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er hárrétt að auðvitað snýst þetta um að ríkið sé ekki í samkeppnisrekstri þar sem augljóst er að töluvert mikil samkeppni er, í rauninni bara mikil samkeppni. Ekki bara eru innlendir einkareknir fjölmiðlar að keppa við ríkisvaldið heldur erlendir miðlar líka. Samkeppnin er því mjög virk og mikil á þeim markaði sem fjölmiðlarnir starfa á. Þess vegna tek ég undir það líka með hv. þingmanni að það er mjög varhugavert að gera fjölmiðla háða ríkisvaldinu með útdeilingu fjármuna í gegnum nefnd, eins og hv. þm. Sigríður Á. Andersen nefndi, sem er vitanlega mjög sérstök ráðstöfun. Um leið gerum við stjórnmálamenn í rauninni háða fjölmiðlunum. Það verður óheilbrigt samband þarna á milli.

Ég er hins vegar að velta fyrir mér hvort yfirleitt sé einhver þörf á því að vera með ríkisútvarp í þeirri mynd sem við erum með það í dag. Ég hugsa að það sé rétt og ég get alveg tekið undir það að ef við skilgreinum þörfina eða skilgreinum hlutverk Ríkisútvarpsins út frá því að deila menningu, vernda tunguna og slíkt, að vera menningarviti okkar á fjölmiðlamarkaði, þá getur vel verið að við getum búið til ásættanlegt kerfi í kringum það. Það yrði þá alltaf að vera þannig að það batterí væri á fjárlögum ríkisins, ekki skattlagning á einstaklinga og fyrirtæki í landinu heldur fengi þessi menningarstofnun fjármuni á fjárlögum frá ríkisvaldinu. Mín vegna mætti það verða deild í menntamálaráðuneytinu eða menningarmálaráðuneytinu, eða hvað það héti þá, sem sæi um þennan hluta af menningarmiðlun sem við svo sannarlega þurfum á að halda og viljum halda.

Stundum er sagt að við eigum að halda Rás 1 eftir og ég set það bara innan gæsalappa, það getur verið í einhvers konar mynd. En við verðum að losna við þetta mikla rándýra bákn út af samkeppnismarkaðnum til að fjölmiðlar geti vaxið og þroskast og þróast eins og annar rekstur á Íslandi.