151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Fimm mánuðir og tveir dagar. Mig lengir, eins og hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, eftir að fá svör frá hæstv. forseta: Hvað dvelur orminn langa í þessu mikilvæga máli sem getur brugðið upp ákveðinni mynd af þróuninni m.a. í íslensku atvinnulífi? Ég vil brýna forseta til dáða í þessu mikilvæga máli og það er ekki mikið eftir af þinginu, ekki nema ríkisstjórnin hafi eitthvað að fela hvað varðar einmitt eignarhaldið, ekki bara í íslenskum sjávarútvegi heldur almennt í íslensku atvinnulífi. Það skiptir máli að þetta komi sem fyrst fram og þessir ríkisstjórnarflokkar sitji ekki á enn einni skýrslunni fram yfir kosningar. En það væri svo sem engin nýlunda að fela það sem er óþægilegt.

Hitt er síðan að það er heldur ekki nýlunda að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki vilja snerta á erfiðum málum og það er alveg með ólíkindum ef þingmenn mega ekki lengur bóka í hv. utanríkismálanefnd (Forseti hringir.) um mikilvæg mál, þrátt fyrir að það standi í ríkisstjórnarsáttmálanum að efla eigi veg og virðingu þingsins, (Forseti hringir.) ekki síst með tilliti til þess að þingmenn fari eftir samvisku sinni í svona málum. (Forseti hringir.) Að setja smá þrýsting á framkvæmdarvaldið, það er það sem framkvæmdarvaldið sjálft óttast af hálfu löggjafarvaldsins.