151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

starfsemi Samkeppniseftirlitsins.

798. mál
[13:47]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu styðja þessa skýrslubeiðni enda tel ég skýrslur yfirleitt góðar og gagnlegar til upplýsingar fyrir okkur öll. Ég velti því samt fyrir mér hvaða hvati búi þarna að baki. Samkeppniseftirlitið er sú stofnun sem hefur það að leiðarljósi að tryggja hér öflugt atvinnulíf, heilbrigt atvinnulíf, í þágu allra rekstraraðila en ekki bara sumra. Í þágu neytenda landsins skiptir það máli. Hvers vegna skiptir samkeppni máli og hvers vegna skiptir máli að ná böndum yfir þá risastóru aðila sem geta komið í veg fyrir að lítil og meðalstór fyrirtæki nái að þrífast á Íslandi? Þetta er allt saman í þágu almennings, almannahagur umfram sérhagsmuni. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér hvers vegna ríkisstjórnin gengur svona hart fram í að minnka og skerða möguleika á hvers kyns eftirliti hér á landi.