151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[13:51]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Í þeirri norðurslóðastefnu sem við afgreiðum hér í þinginu í dag eru lagðir til 19 áhersluþættir sem snúa að umhverfismálum og sjálfbærni, öryggismálum, leit og björgun, efnahagstækifærum og innviðauppbyggingu, vísindum, nýsköpun og atvinnuuppbyggingu, en allt miðar það að því að gæta hagsmuna Íslands og tryggja velferð íbúa norðurslóða. Ný norðurslóðastefna undirstrikar mikilvægi norðurslóða í hagsmunum Íslands en ekki síður mikilvægi svæðisins í alþjóðlegri umræðu vegna örra umhverfisbreytinga og hlýnunar loftslags. Málefni norðurslóða vega þannig stöðugt þyngra í þjóðmálaumræðu okkar og verða líklega þungamiðja stjórnmála hér á komandi tímum. Hér er lögð fram norðurslóðastefna sem var unnin í þverpólitískri sátt. Ég vil þakka hér fyrir gott samstarf í starfshópnum við gerð stefnunnar.