151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

456. mál
[14:19]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er full ástæða til að taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað um að það hafi dregist allt of lengi að ljúka þessu máli. Ég tel að nefndin hafi verið nokkuð samstiga í þeirri afstöðu sinni að ekki sé gerlegt að halda áfram á þeirri braut. Á hinn bóginn er ekki hægt að hafa ekkert ástand, það er ekki hægt að hafa enga stöðu. Þess vegna er bráðabirgðaákvæðið framlengt en nefndin af biturri reynslu ákveður engu að síður að gera breytingartillögu um það að framlengja bráðabirgðaákvæði til heldur lengri tíma en áður hefur verið til þess að gefa stjórnvöldum það svigrúm sem þau ættu í mesta lagi að þurfa til að klára málið í samvinnu við þá aðila sem að því koma.