151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

kjör lífeyrisþega og skerðingar.

[13:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fyrir skömmu kom út skýrsla um kjör lífeyrisþega sem Stefán Ólafsson og Stefán Andri Stefánsson unnu í samstarfi við Eddu – rannsóknasetur við Háskóla Íslands og stéttarfélagið Eflingu. Skýrslan dregur fram skýrum hætti áhrif skerðinga í almannatryggingakerfinu. Af hverjum 50.000 kr. viðbótartekjum frá lífeyrissjóði fá lífeyrisþegar að jafnaði um 13.370 kr. í sinn hlut en ríkið fær í skatta og skerðingar samanlagt um 36.600 kr. Almennt hefur skattbyrði lífeyrisþega, ekki síst lágtekjulífeyrisþega, hækkað stórlega á tímabilinu 1990–1996, en þá var óskertur lífeyrir almannatrygginga skattfrjáls. Sambærileg upphæð í dag ber um 50.000 kr. tekjuskatt á mánuði. Sú skattbyrði ásamt lágu lífeyrishámarki hjá TR veldur því að óskertur lífeyrir almannatrygginga dugar ekki fyrir lágmarksframfærslukostnaði einhleyps lífeyrisþega á höfuðborgarsvæðinu.

Skýrsluhöfundar leggja fram tvær umbótatillögur til að draga úr lágtekjuvanda meðal lífeyrisþega og til að bæta virkni lífeyriskerfisins. Sú fyrri er að hækka frítekjumark gagnvart greiðslum frá lífeyrissjóðum í 100.000 kr. á mánuði í stað 25.000 kr. Flokkur fólksins hefur einmitt lagt fram frumvarp þess efnis en ekkert kemur frá ríkisstjórninni. Hvers vegna?

Ef við tölum um skerðingar almennt þá erum við þarna að tala um skerðingar númer eitt, síðan koma skerðingar tvö, keðjuverkandi skerðingar. Það eru skerðingar í barnabótakerfinu, í leigubótakerfinu, í kerfinu um sérstakar húsaleigubætur og í félagsbótakerfinu sem bætast ofan á þetta. Þetta veldur því að það fólk er sent í sárafátækt, fátækt og sumir rétt skrimta. Þetta veldur því að það eru 80–100% skerðingar á sumri framfærslu sem fólk á að reyna að lifa af. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort skerðingar í lífeyriskerfinu séu of miklar. Myndi forsætisráðherra styðja 100.000 kr. frítekjumark almannatrygginga vegna lífeyristekna?