151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

kjör lífeyrisþega og skerðingar.

[13:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Kannski kemur hv. þingmaður að þeim punkti, þegar hann talar annars vegar um öryrkja og hins vegar kerfið í heild, að við þurfum að horfast í augu við að þetta eru ekki sambærileg kerfi, annars vegar fyrir ellilífeyrisþega og hins vegar fyrir örorkulífeyrisþega, af því að breytingar voru gerðar á kerfinu hvað varðar ellilífeyrisþega. Það er heldur ekki hægt að ræða um kjör þessara hópa eins og þau séu algjörlega sambærileg. Þau eru það einfaldlega ekki. Staða eldri borgara er að meðaltali mun betri vegna þess að þar eru margir sem eiga lítið skuldsett eða skuldlaust húsnæði og lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðakerfinu fara vaxandi með hverjum árgangi. Það breytir því ekki að það eru hópar meðal eldri borgara sem þarf að koma betur til móts við og við höfum verið að gera það með félagslegum viðbótarstuðningi, fyrir utan að nú er hópur á vegum félagsmálaráðherra að ljúka vinnu hvað varðar heildarendurskoðun á kerfinu. Þegar kemur að örorkulífeyrisþegum trúi ég ekki öðru en að hv. þingmaður sé mér sammála um að það þarf þessa heildarskoðun á framfærslugrunni kerfisins. Það er mjög miður að í raun og veru hafi ekki náðst nein niðurstaða í því verkefni.