151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

störf þingsins.

[13:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú stendur yfir nýsköpunarvika. Það er fjöldi spennandi viðburða um allt land í þessari viku. Sem dæmi má nefna að eitt af sameiginlegum markmiðum sóknaráætlana landshluta er fullvinnsla afurða og tel ég gífurleg tækifæri fólgin í þeim geira, bæði í landbúnaði, sjávarútvegi og í grænmetisframleiðslu. Sprottið hefur upp fjöldi sprotafyrirtækja vítt og breitt um landið sem hafa nýtt sér það stuðningsnet sem stjórnvöld hafa skapað með sveitarfélögum og fyrirtækjum. Framlög til nýsköpunar hafa verið að aukast mjög mikið undanfarið kjörtímabil, allt að 70%. Nýjungar eins og Matvælasjóður og Kría eru gott dæmi um viðbótarsjóði í því umhverfi sem fyrir er.

Ef farið er inn á vefinn Nýsköpunarvikan.is má sjá þá miklu grósku af öllu tagi sem er í nýsköpun í landinu. Ég nefni hér sem dæmi viðburði: Sjálfbærar sjávarbyggðir – mikilvægi nýsköpunar í orkuskiptum. Hátækni, matvælaframleiðsla og orka. Nýsköpun í mannvirkjagerð. Hvernig getur heilbrigðistækni umbylt þjónustu við sjúklinga? Vegvísir að lykilupplýsingum um samgöngur, fjarskipti og byggðamál. Konur í nýsköpun. Allt eru þetta spennandi atburðir sem eru í boði. Opnuð var textílmiðstöð á Blönduósi nú fyrir nokkrum dögum þar sem er smiðja og er hluti af Textílmiðstöð Íslands. Hluti af verkefninu Matarboðið í nýsköpunargreinum er á ýmsum veitingastöðum, þar á meðal á Sjávarborg á Hvammstanga. Allt eru þetta áhugaverðir viðburðir. Mér finnst þátttaka í nýsköpun af öllu tagi hafa aukist mjög á undanförnum árum. Við þurfum að vera tilbúin til þess að skapa ný störf þegar önnur eldri leggjast af sökum tækniþróunar.