151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:31]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég myndi kannski fyrst vilja nefna þennan punkt sem hann orðaði held ég sem séríslenskt samhengi. Það held ég að eigi við um ansi margt í okkar efnahagsmálum og ríkisfjármálum og þegar umsögn fjármálaráðs er lesin þá finnst manni það vera allt að því svona rauður þráður þar. Ég hef nálgast umræðuna með þeim hætti að það hafi vissulega verið núna full ástæða fyrir ríkið til að stíga sterkt inn með fjárfestingum, taka stór skref í þeim efnum. En það skiptir ekki bara máli að gera það heldur að tímasetningar í þeim efnum leiki lykilhlutverk. Hinn gagnrýnispunkturinn var síðan að mér finnst ríkisstjórnin aðeins standa í skjóli þess núna hver staðan í efnahagsmálum er, en forðast dálítið samtalið um það hver staðan var hér í efnahagsmálum áður en þetta efnahagslega áfall dundi á okkur. Hún var ekki góð eins og ég var að nefna. Staðan var orðin ósjálfbær fyrir þennan tíma. Mögulega hef ég misskilið spurninguna en ef spurningin er sú hvort ég sé að mæla því í móti að það hafi átt að fara í fjárfestingar í innviðum á þessum tímapunkti og gera það með kraftmiklum og þungum hætti af hálfu ríkisvaldsins þá er það alls ekki þannig. Það er lykilbreyta og raunar grundvallarhlutverk af hálfu ríkisins að gera það með kraftmiklum hætti þegar svona stendur á.