151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

aukið samstarf Grænlands og Íslands.

751. mál
[14:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Loga Einarssonar. Það er nefnilega þannig að þessi skýrsla var unnin í góðu og miklu samstarfi við grænlensk stjórnvöld og aðila á Grænlandi. Það er í raun á þeirri skýrslu sem við byggjum svo þessa þingsályktunartillögu sem er ánægjulegt að sjá að þingheimur allur tekur undir. Ég er algerlega sannfærð um að það séu mjög mikil tækifæri í auknu samstarfi milli þessara þjóða. Það er líka ánægjulegt að finna það, þegar maður heimsækir Grænland og talar við Grænlendinga, hve áhugi þeirra er mikill á því að vera í samskiptum og samvinnu við Íslendinga og á því eigum við að byggja þetta. Það eru tækifæri fyrir báðar þjóðir og ég er sannfærð um að það verði til heilla fyrir bæði Ísland og Grænland að auka samstarf okkar.