151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Mig langar að ræða hér gjaldfrjálsar tíðavörur og byrja á því að rifja upp atburði liðins vetrar. Í haust skiluðu Anna María Allawawi Sonde og Saga María Sæþórsdóttir umsögn til Alþingis við fjárlög þar sem þær fóru fram á að tíðavörur yrðu aðgengilegar án gjaldtöku í skólum og félagsheimilum. Þar með bættust þær í langa röð grasrótarfólks sem barist hefur fyrir þessu aðgengi að sjálfsögðum hreinlætisvörum. Og þingið hlustaði. Við greiddum hér atkvæði um breytingartillögu við fjárlög að gera þessar vörur gjaldfrjálsar gagnvart ákveðnum hópum. Sú tillaga var hins vegar felld með einu einasta atkvæði. Það voru 27 stjórnarliðar sem greiddi atkvæði gegn henni, 26 sem studdu hana. En svo kom menntamálaráðherra hér upp í pontu og lýsti því yfir að hún hefði nú þegar beint því til skólameistara að tryggja framgang málsins og hún teldi raunhæft að í lok næstu skólaannar væri búið að klára málið. Nú eru lok þessarar skólaannar. Nokkur sveitarfélög hafa stigið skrefið á undanförnum mánuðum, Reykjavík, Ísafjörður og Sauðárkrókur, svo ég nefni bara þrjú, en ráðuneytið virðist ekki búið að klára málið. Í frétt Fréttablaðsins um helgina segir í svörum ráðuneytisins við fyrirspurn um þetta mál að unnið sé að því að tíðavörur verði aðgengilegar og gjaldfrjálsar fyrir nemendur í öllum framhaldsskólum og að ráðgert sé að mál er varðar aðgengi að tíðavörum í grunnskólum verði tekið upp á samráðsfundi með sveitarstjórnum á næstunni. Þetta er ekki að tryggja aðgengi í lok þeirrar skólaannar sem nú er að ljúka.

Virðulegur forseti. Er eðlilegt að vinnsla við verkefni af þessu tagi taki svona langan tíma? (Forseti hringir.) Er nema von að grasrótarfólkið sem stendur hér ár eftir ár í þessari baráttu, velti því fyrir sér hvort stjórnvöld (Forseti hringir.) bíði þau einfaldlega af sér í þeirri von að það útskrifist og næsti árgangur taki slaginn ekki strax upp? Í þessu samhengi (Forseti hringir.) er rétt að nefna að Reykjavíkurborg áætlar litlar 750.000 kr. í að (Forseti hringir.) innleiða þetta í grunnskólum og félagsheimilum Reykjavíkurborgar.

(Forseti (SJS): Nú er hv. þingmaður kominn mínútu fram yfir.)

Ráðuneytið þarf að laga þetta.