151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Stóri gallinn, sá stærsti í hagkvæmnismati hv. þingmanns, er að hann virðist gera ráð fyrir því að borgarlínan muni létta á umferðinni og ef ekki verði ráðist í framkvæmdir við borgarlínu þurfi að stækka vegakerfið þeim mun meira. Raunin er sú að borgarlínunni er beinlínis ætlað að þrengja að umferðinni. Það kemur meira að segja fram í skýrslu dansks ráðgjafarfyrirtækis sem vann að undirbúningi verkefnisins, að eftirspurn eftir ferðamáta eins og þessari borgarlínu væri það takmörkuð á Íslandi eða hér á höfuðborgarsvæðinu að það myndi þurfa að gera aðra valkosti óhagkvæmari eða óaðgengilegri, með öðrum orðum að þrengja að umferðinni, enda er það yfirlýst markmið. Með því að taka eina akrein í hvora átt á helstu samgönguæðum verður þrengt verulega að annarri umferð þannig að þeir sem sitja fastir í bílum sínum og þurfa að borga borgarlínuna með veggjöldum eða sérstökum sköttum, eins og velt hefur verið upp og gert er ráð fyrir, munu sitja fastir þeim mun lengur og borgin og sjálfstæðisflokkarnir, eins hv. þingmaður segir, í nágrannasveitarfélögunum, vonast til þess að menn gefist einfaldlega upp á umferðarteppunum og neyðist til að fara í borgarlínuna.

Þarna eru sjálfstæðisflokkarnir hringinn í kringum Reykjavík komnir í neyslustýringu að því marki að ætla að pína fólk úr fjölskyldubílnum og upp í hið óhemju óhagkvæma borgarlínuverkefni sem ríkið mun svo sitja uppi með kostnaðinn af ásamt öðrum vegfarendum til framtíðar.