151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:22]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur. Það er alveg rétt að auðvitað getur maður sett sig í einhver spor og það eru forstjórar heilbrigðisstofnana, hvort sem það er Landspítali eða annar sem fer með átröskunarteymið, sem eiga að sjá til þess að það fái fjármagn o.s.frv.

En til að svara þessu með áætlunina get ég upplýst hv. þingmann um það að ég held að sú áætlun dingli sér enn þá inni í ráðuneytinu, því miður. Lausnin er sjálfsagt sú gagnvart okkur núna að kalla eftir þessum upplýsingum og stíga dálítið fast niður til þess að fá þær fram. Mig langar að tengja þetta við ályktun sem almennir heimilislæknar voru að setja frá sér, um að nú sé sett eyrnamerkt fjármagn inn í heilsugæslustöðvarnar, til þess að byggja upp geðheilsuteymin m.a., gef ég mér. Á sama tíma er ráðherra í lófa lagið að fara fram á það við forstjóra Landspítala að eyrnamerkja eitthvert ákveðið fjármagn, t.d. til átröskunarteymisins eða annarra þátta sem snerta geðheilbrigði. Það verður a.m.k. að vera samhljómur í því sem fólk segir og ætlar sér að gera.