151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur á síðustu dögum lagt fram tvö lykilmál um fjármál, fjármálaáætlun og frumvarp til fjáraukalaga. Þau eru því marki brennd, bæði tvö, að það er svo yfirgengileg hugmyndafátækt að baki báðum plöggum að það er eiginlega sárgrætilegt. Mig langar að vekja sérstaka athygli á einu atriði í þessu fjáraukalagafrumvarpi, sem er aukafjárveiting til hjúkrunarheimila. Því hefur verið lýst af forsprökkum hjúkrunarheimila að sú upphæð sem hér er nefnd, í kringum 1 milljarð kr., dugi kannski upp í einn þriðja af þeim uppsafnaða halla sem þegar liggur fyrir hjá þessum stofnunum. Þetta er þess vegna eins og að setja heftiplástur á svöðusár og mun hvergi duga. Rekin hefur verið sveltistefna af hálfu stjórnvalda gagnvart þessum umönnunarheimilum sem annast aldraða. Ég hygg að þetta sé einn liðurinn í þeirri óbeit sem heilbrigðisráðherra hefur á öllum þeim heilbrigðisstofnunum sem eru ekki brennimerktar ríkinu.

Eins og við vitum eru hjúkrunarheimili og öldrunarstofnanir reknar bæði af félagasamtökum, einkaaðilum, og af sveitarfélögum og sveltistefnan hefur haft það í för með sér að sveitarfélög hafa nú nokkur gefist upp og látið frá sér rekstur hjúkrunarheimilanna. Það hefur orðið til þess að þar á að lækka verulega launakostnað, sem sagt minnka þjónustu við heimilisfólk sem þar býr. Það hefur komið fram aftur og aftur undanfarnar vikur og mánuði. Eftir að menn eru búnir að svelta þessa starfsemi verulega þá á núna að mylgra til þeirra 1 milljarði sem dugar fyrir þriðjungi af því sem þarf. Jafnframt er boðað að það eigi að taka þessa starfsemi, þ.e. rekstur hennar, til gaumgæfilegrar yfirferðar og ég get ekki séð annað en að í því felist einhver dulbúin hótun stjórnvalda um að nú verði haldið áfram að berja á þessum fyrirtækjum og heimilum.

Þetta er, herra forseti, svo sem í takt við framkomu ríkisstjórnarinnar að öðru leyti í garð aldraðra vegna þess að á síðustu fjórum árum hefur ríkisstjórnarmeirihlutinn fellt tillögur, t.d. okkar Miðflokksmanna, við hverja fjárlagagerð, allar tillögur sem settar hafa verið fram, fjármagnaðar, vel ígrundaðar, um réttarbætur fyrir aldraða, t.d. þær að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur. Því hefur verið haldið fram að þetta sé svo óheyrilega dýrt. En menn hafa ekki horft til þess hvað það er tekjumegin sem fylgir með þegar úrræði eins og slíkt er tekið í notkun. Í fyrsta lagi myndi það forða því að Íslendingar gerist skattsvikarar á efri árum, fari að vinna svart vegna þess að hið svokallaða frítekjumark sem við höfum verið með núna í fjögur ár væri hreinlega fyndið ef það væri ekki svona fáránlegt og erfitt. En þetta bjóða stjórnvöld öldruðum upp á og það er enginn skilningur á því að þegar ráðstöfunartekjur aldraðra aukast þá fer sá ábati þeirra í aukna neyslu með ýmsum hætti. Það er ekki nóg með það að ríkið verði af skatttekjum þessa hóps sem vill vinna og getur unnið, heldur verður ríkissjóður líka af þeirri veltuaukningu sem óhjákvæmilega myndi fylgja slíkri leiðréttingu. Í viðbót við það, herra forseti, er alveg ljóst að aukin atvinnuþátttaka aldraðra og lengra fram í ævina dregur úr félagslegri einangrun og er til langs tíma forvörn gegn því að heilsan bresti. Þetta hefur verið sýnt fram á með rannsóknum en ríkisstjórninni er alveg sama um það og er greinilega alveg sama um aldraða.

Af fimm baráttumálum sem Landssamband eldri borgara hefur lagt fram núna til stjórnmálaflokkanna fyrir kosningarnar í haust var sérstaklega ánægjulegt að sjá að í þremur af þessum fimm málaflokkum hefur Miðflokkurinn lagt fram þingmál, ekki einu sinni heldur hvað eftir annað. Þar á meðal er atriði sem aldraðir hafa stungið upp á, sem er búsetukostur á milli heimila og hjúkrunarheimila. Það er reyndar eitt sem líka hefur verið mjög vanrækt hér á síðustu árum, hugsanlega vegna þess að það er flækjustig milli sveitarfélaga og ríkisins, en það er svokölluð heimaþjónusta við aldraða, þ.e. heimilisaðstoð og stuðningur við aldraða sem vilja búa í eigin húsnæði fram eftir aldri. Þetta hefur verið algerlega forsómað og ekkert verið gert í því. Núna, korter í kosningar, stökkva menn til og þykjast ætla að leiðrétta þetta með einhverjum hætti en trúi því hver sem vill. [Kliður í þingsal.] Það er nú orðið erfitt að halda hér ræðu, herra forseti, fyrir háreysti í salnum. (Forseti hringir.)

Þessi atriði þurfa náttúrlega öll að vera til skoðunar og að setja milljarð til þess arna er nánast móðgun fyrir þær stofnanir sem hafa hert að sér undanfarin misseri og ár til að reyna að halda starfsemi sinni úti. Meira að segja hefur heyrst af því, herra forseti, að umönnunarþyngstu aðilar, sem kallaðir eru, þar er verið að tala um einstaklinga, verið að tala um fólk — að menn hafi dregið það við sig að taka inn mjög veika einstaklinga vegna þess að fjármunir séu ekki nægir. Á sama tíma, herra forseti, er stór hópur aldraðra fastur á sjúkrahúsum og kemst ekki þaðan út vegna þess að þar vantar einhver úrræði til að taka við. Dvölin á hátæknisjúkrahúsi er náttúrlega miklu, miklu dýrari en á hjúkrunarheimili eða því sem einu sinni var kallað elliheimili, þar sem menn höfðu stuðning en voru meira og minna sjálfstæðir að öðru leyti.

Miðflokkurinn mun leggja fram á landsþingi heildstæða stefnu undir kjörorðinu Frá starfslokum til æviloka, sem verður samfelld stefna um það hvernig hægt er að létta öldruðum ævikvöldið, auka virkni hópa framan af efri árum og tryggja að eitt skref taki við af öðru þegar aldur færist yfir og heilsa dvínar. Í dag er þetta alls ekki svo, herra forseti. Í dag er þetta þannig að þegar aldur færist yfir og öldrunarsjúkdómar og fleiri sjúkdómar láta á sér kræla þá vantar samfellu í þjónustuna. Það þarf í raun og veru að berjast fyrir hverju skrefi. Það er nöturlegt, herra forseti, að sjá hvernig farið er með þá kynslóð sem á stærstan þátt í velgengni þessa þjóðfélags í dag, þolinmóðasta fólk á Íslandi, fólk sem ekki sækir fram fyrir sjálft sig, það leitar ekki síns eigin ef ég má vitna í hina helgu bók, heldur lætur yfir sig ganga alls konar hluti vegna þess að þetta fólk er í eðli sínu hógvært og vill ekki láta mikið fyrir sér hafa. En það er engin ástæða til að hafa hlutina eins og þeir eru, herra forseti, og þess vegna hefur Miðflokkurinn lagt fram hér æ ofan í æ, aftur og aftur, frumvörp til að leiðrétta og laga stöðu þessa þjóðfélagshóps, sem er innbyrðis mjög ólíkur, lagt fram frumvarp eftir frumvarp og tillögu eftir tillögu til þess að laga til í þessum málaflokki en fyrir daufum eyrum.

En nú, korteri fyrir kosningar, ætla stjórnarflokkarnir að reyna að skreyta sig með einhverjum fjöðrum og reyna að setja fram einhverja stefnu til að leiðrétta kjör aldraðra og gera þeim þjóðfélagshópi eitthvað til góða. Það kann vel að vera að einhverjir úr hópi aldraðra, sem er nú einn stærsti þjóðfélagshópur á Íslandi, muni trúa þeim fagurgala sem nú mun klingja í eyrum þeirra á síðustu mánuðum þessa kjörtímabils fyrir kosningar. En ég ætla bara að segja við þennan hóp: Varist eftirlíkingar. Þegar Miðflokkurinn kynnir áætlun sína, sem verður núna á næstunni, í viðbót við það sem flokkurinn hefur þegar lagt fram hér ítrekað til að leiðrétta kjör þessa stóra hóps, þá ráðlegg ég mönnum að leggja við hlustir og ég segi ég aftur: Varist eftirlíkingar. Það er til vansa fyrir okkur sem þjóðfélag hvernig við höfum komið fram við aldraða í þó nokkurn tíma. Við höfum horft á þann hóp eins og hann sé bara eitt mengi og á undanförnum árum hefur gjarnan verið talað um málefni aldraðra og öryrkja undir einum hatti. Það eru algerlega ólíkir hópar með ólíkar þarfir og ólíka stöðu, líka innbyrðis. Á þetta hefur ekki verið hlustað. Á þetta hefur ekki verið horft, engin stefna uppi, því miður, en því verður bætt úr. Miðflokkurinn mun leggja þar gjörva hönd á plóg eins og hans er von og vísa.

Þetta, herra forseti, ætlaði ég aðallega að ræða í þessari fyrstu ræðu minni. Ég á eftir að koma inn á fleiri þætti sem eru inni í þessu fjáraukalagafrumvarpi, en bara að ætla sér að bjóða upp á að henda hér inn upphæð korter í kosningar sem hugsanlega lagar þriðjung þess vanda sem við er að etja er nánast móðgandi, herra forseti. Ég vona að ríkisstjórnin sjái að sér og nú þegar þetta frumvarp fer til nefndar verði gerð bragarbót hér á vegna þess að það er mjög brýnt og við getum ekki látið þann stóra hóp sem byggði upp þetta land búa við óvissu á efri árum.