151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fullnusta refsinga.

569. mál
[21:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er gott ef við getum skýrt þessa þætti nánar. Frumvarpið eins og það er útbúið og eins og nefndin afgreiðir það frá sér gerir ráð fyrir að um tímabundið úrræði sé að ræða. Því fé er ætlað að gilda til 1. júlí 2024 þannig að því er ætlaður þriggja ára gildistími. Orðin sem hv. þingmaður vísar til eru viðbrögð meiri hluta nefndarinnar við ábendingum eða tillögum sem komu fram við málsmeðferð um að þetta ákvæði yrði ekki tímabundið heldur varanlegt. Við teljum ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar spurningar. Við teljum að það nægi okkur núna að samþykkja tímabundið ákvæði, enda eru þá þrjú ár til að taka afstöðu til ábendinga eða tillagna sem komið hafa fram um varanlegt fyrirkomulag þessara mála. Ég held að ég geti ekki skýrt þetta nánar en ítreka síðan það sem ég sagði líka í framsöguræðu minni, að hér er auðvitað um heimildarákvæði að ræða. Við erum í þeirri stöðu að við erum hér með úrræði sem við þekkjum, en við erum hins vegar að rýmka skilyrði til þess að þeim verði beitt. Við teljum ekki í meiri hluta nefndarinnar að það séu forsendur til þess eða að athugun eða umræða hafi enn þá verið á þá leið að það sé tilefni til þess að gera þetta með varanlegum hætti. Við tökum enga afstöðu til þess heldur vísum þeirri spurningu inn í framtíðina, enda eru þá þrjú ár til að meta þann þátt nánar.