151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:01]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég hefði kosið að við værum hér að samþykkja hálendisþjóðgarð og stefndi að því sem framsögumaður málsins. Þegar nær dró þinglokum og í ljós kom að við myndum ekki ná því voru fyrir mér tveir kostir mögulegir og aðeins tveir. Annaðhvort myndum við láta málið deyja í nefnd, eins og hér hefur verið nefnt, eða reyna að vinna áfram með málið og gera eitthvað gott úr þeirri stöðu sem komin er upp.

Hluti hv. stjórnarandstöðuþingmanna talar eins og hér eigi bara að koma með nákvæmlega sama mál og nýtt frumvarp og allt sé ónýtt af því að sama mál sé að koma aftur og hluti talar eins og hér sé opinber útför. Ég veit ekki hverjum dettur í hug að við færum í gegnum sex tíma umræðu Miðflokksins um hálendisþjóðgarð nema af einhverri ástæðu. Hún er sú að hér er verið að vísa málinu til ríkisstjórnar og fela umhverfis- og auðlindaráðherra að leggja fram nýtt frumvarp um málið. Ég hefði kosið að þau sem vilja nýtt mál um hálendisþjóðgarð gætu greitt atkvæði með því en ég skil það vel ef ekki næst samstaða um það. (Forseti hringir.) Það er ástæðan fyrir því að ég styð málið. Ég vil að Alþingi gefi þau skýru skilaboð að við viljum nýtt mál.