151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

leiðrétting búsetuskerðinga öryrkja.

[13:10]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í september árið 2017, örfáum mánuðum áður en hún tók við embætti forsætisráðherra, sagði þáverandi hv. þm. Katrín Jakobsdóttir um ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar að stjórnvöld ættu ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi um að bíða eftir réttlæti.

Forseti. Þann 20. júní 2018 skilaði umboðsmaður Alþingis áliti þar sem hann lýsti því hvernig örorkulífeyrisþegar sem hafa verið búsettir í öðru landi innan EES hafa þurft að lifa við ólöglegar skerðingar í áratug og jafnvel lengur. Félagsmálaráðuneytið staðfesti þennan úrskurð og lofaði leiðréttingu. Í dag, rúmum þremur árum síðar, bíða hundruð öryrkja enn eftir réttlætinu. Meira en helmingur þeirra sem urðu fyrir ólöglegum skerðingum bíða enn eftir leiðréttingunni sem þeim var lofað. 96 þeirra dóu á meðan þeir biðu eftir réttlætinu.

Aðeins örfáum mánuðum áður en hæstv. forsætisráðherra tók við stjórnartaumum núverandi ríkisstjórnar sagði hún, með leyfi forseta:

„Stjórnmálamenn mega aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti. Stjórnmálamenn þurfa að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þarf til. Annars er hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni og þá ábyrgð þurfum við öll að axla.“

Nú er þetta fólk enn þá að bíða. Það er því ekki að sjá að hæstv. ráðherra hafi beitt sér nægilega vel fyrir réttlætinu. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er það vegna þess að ráðherrann hefur ekki viljað beita sér eða hefur hún bara ekki getað beitt sér með hendurnar bundnar í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum þar sem hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson heldur um pyngjuna?