152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:56]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir að vekja athygli mína á henni og þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir að skoða gamlar fyrirspurnir frá mér. Það er algerlega til fyrirmyndar og ég mælist til þess að allir þingmenn geri það, ekki bara fyrirspurnir heldur líka mál og frumvörp og hjálpi til svo að það sem er ekki enn þá búið að fara í gegn, fari í gegn. Ég treysti á stuðning hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar til að ganga í þetta og segi bara að hv. þingmaður byrjar vel. Og það er líka gott að hv. þingmaður fari hér yfir mistök fortíðar. Þegar ég var í stóli heilbrigðisráðherra þá gerðum við það sem er mjög skynsamlegt, af því að ég var fyrst heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, að setja tryggingamálin þar sem þau áttu heima, í félagsmálaráðuneytið. Það var mjög skynsamlegt, ekki auðvelt, þetta er ekki auðvelt, en það var mjög skynsamlegt af augljósum ástæðum. Það að skella síðan þessu öllu saman í eitt velferðarráðuneyti er án nokkurs vafa ein stærstu mistök sem hafa verið gerð í sögu Stjórnarráðsins. Hvernig mönnum datt það í hug að setja nokkurn veginn öll útgjöld ríkisins eða langstærstan hluta þeirra í eitt ráðuneyti var öllum hulin ráðgáta. Sem betur fer var því svo skipt upp og það bara gerðist í rauninni af sjálfu sér vegna þess að þetta gekk engan veginn og öll rökin, sem voru algjör rökleysa, um að það væru samlegðaráhrif og annað slíkt stóðust enga skoðun þegar á hólminn var komið. Mistök eins og þessi hafa kostað mjög mikið í þessum mikilvægu málaflokkum.

En af því að hv. þingmaður tvískipti ræðu sinni þá ræði ég það sem hv. þingmaður ræddi í seinni hlutanum í seinna andsvari.