152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

hjúskaparlög.

163. mál
[16:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að slík staða yrði leyst með hagsmuni þeirra sem ættu undir eftir að farið hefði farið fram ítarleg skoðun á því og aðstæður þeirra metnar og hagsmunir metnir. Ég tel að við getum reiknað með því að í þeirri meðferð eigi að nást slíkur árangur sem hér er kveðið á um. Það er sjálfsagt fyrir nefndina að skoða í þaula hvort þetta geti orðið álitaefni sem þarf þá einhvern veginn að bregðast við í löggjöfinni, ef menn telja svo hér á þinginu.

Það er annað sem skiptir máli í allri þessari málsmeðferð af hálfu opinberra aðila og er í raun gríðarlega mikilvægt mál þegar horft er til þeirra breytinga sem hér eru boðaðar, og á við reyndar um fleiri atriði, og það er þegar farið er að fela einu sýslumannsembætti að meðhöndla þessi mál í stað þess að þau skuli vera dreifð um landið eins og sýslumannsembættin eru mörg. Með því fæst miklu samræmdari málsmeðferð og samræmdari vinnubrögð og miklu meiri þekking, sérþekking, á þessum málefnum, sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt, bæði til að auka skilvirknina og eins til þess að bæta málsmeðferð og samræma alla málsmeðferð.