152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

loftferðir.

186. mál
[17:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra framsöguna, að hafa náð að koma nokkuð skilmerkilega til skila 276 greina frumvarpi í stuttri og skýrri framsöguræðu. Þetta er væntanlega með umfangsmeiri frumvörpum sem þingið fær til sín og umhverfis- og samgöngunefnd á ærið verk fyrir höndum að rýna það ofan í kjölinn. En það einfaldar okkur kannski verkið að frumvarpið var lagt fram fyrir ári og við eigum því nú þegar nokkrar umsagnir sem vert er að líta til. Mig langar að spyrja ráðherra sérstaklega út í tvær þeirra, eða tvenn sjónarmið sem komu fram í fyrra sem mér sýnist ekki hafa orðið til þess að breytingar hafi verið gerðar á frumvarpinu nú á milli ára

Í fyrra andsvarinu vil ég nefna umsögn Flugfreyjufélags Íslands sem hvetur þingið eindregið til að fella flugliða undir hin almennu vinnuverndarlög, að svo miklu leyti sem unnt er miðað við þann óvenjulega vinnustað sem loftför eru. Ég sé að þetta hefur ekki verið gert í þessari annarri umferð ráðuneytisins á málinu.

Mig langar að spyrja ráðherra hvaða sjónarmið ráða því helst, hvort ekki sé athugandi að taka þessa stétt, og þá væntanlega fleiri sem tengjast störfum við loftför, undir verndarvæng laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum með því fella út það ákvæði sem undanskilur loftferðalögin þeim vinnuverndarlögum (Forseti hringir.) og sjá hvort við náum ekki þannig traustara og öruggara umhverfi utan um þennan hóp fólks.