152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

sóttvarnir og takmarkanir á daglegt líf í bólusettu samfélagi.

[11:51]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda og ekki síður heilbrigðisráðherra fyrir þessa þörfu umræðu. Það hillir vonandi undir að við sjáum fyrir endann á Covid-faraldrinum sem leikið hefur heimsbyggðina grátt á undanförnum tveimur árum. Blessunarlega hefur okkur Íslendingum tekist afar vel upp í baráttunni og það er gríðarlega mikilvægt að við hefjumst þegar handa við að greina viðbrögðin og mæta þeim framtíðaráskorunum sem snúa að sóttvörnum hér á landi.

Forseti. Ég get heils hugar tekið undir með þeim sérfræðingum sem velta því fyrir sér hvort það sé tímabært að við Íslendingar setjum á laggirnar sérstaka sóttvarnastofnun. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur bent á mikilvægi þess að þjóðir heims búi sig mun betur undir aðstæður eins og þær sem komu upp í heimsfaraldrinum. Það er allt eins líklegt að enn alvarlegri faraldur geti komið upp á næstu árum eða áratugum. Heimsfaraldurinn hefur undirstrikað mikilvægi samvinnu. Þróun bóluefnis við Covid-19 sýndi það og sannaði að með samráði þjóða, fyrirtækja og vísinda er hægt að auka árangur stórlega. Ég tel mikilvægt að halda áfram á þeirri vegferð inn í framtíðina og auka enn frekar alþjóðlegt samstarf á sviði faraldsfræði, smitvarna og upplýsingagjafar, stuðla að enn frekari samhæfingu hér á landi og auka samráð við hagsmunaaðila víðs vegar í samfélaginu.

Við Íslendingar erum lánsamir. Við eigum sérfræðinga á heimsmælikvarða og getum bæði miðlað þekkingu og nýtt okkur vel þann lærdóm sem hlotist hefur af áhrifaríkum viðbrögðum okkar hingað til í faraldrinum. Verum því bjartsýn og höldum ótrauð áfram því að það er ljós við enda ganganna.