152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

biðlisti barna eftir þjónustu talmeinafræðinga.

121. mál
[17:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og umræðuna hér. Ég var kominn að þeim lið sem er mönnunin og snýr jafnframt að tæknilausnum og þjónustu við alla landsbyggðina. Ég hef ekki enn fengið þessar heildstæðu tillögur frá starfshópnum en tæknilausnir eru mjög mikilvægar samhliða því að meta þörfina fyrir mönnun. Það er er eitt af verkefnunum. Námið er, eins og ég var að byrja á í fyrri ræðu, tveggja ára langt og það er aðeins tekið á móti nemendum annað hvert ár og að hámarki 15 nemendum í senn. Eftir mínum bestu upplýsingum þá mun það ekki duga til þrátt fyrir tæknilausnir og það að við nýtum alla þekkinguna í kerfinu, sem mér finnst blasa við að verði að gera. Síðast var tekið á móti 18 nemendum en ef fjölga á nemendum í talmeinafræði þá þarf einnig að fjölga kennurum og það þarf að vinna að þessu samhliða. Þá hefur gengið erfiðlega að finna námspláss fyrir talmeinafræðinga í starfsnámi þannig að það eru fjölmörg atriði sem þarf að skoða í þessu.

Ég tek heils hugar undir með þeim sem hafa bent hér á landsbyggðina og mikilvægi tæknilausna og fjarlausna á því sviði. Mitt ráðuneyti hefur verið að skoða hvort fjölga megi nemendum í talmeinafræði við háskólann og fjölga þannig talmeinafræðingum á Íslandi. Landsráð um mönnun og menntun er jafnframt að skoða þennan þátt eins og alla aðra í heilbrigðisþjónustu og þá hefur landsráði verið falið að gera sérstaklega tillögur um fjölda talmeinafræðinga sem vantar til starfa bæði á næstu misserum og til framtíðar þannig að ef við nýtum alla þekkinguna samhliða því og samhliða heildstæðum tillögum frá þessum starfshópi (Forseti hringir.) og samningum um þessa þjónustu, (Forseti hringir.) þá hef ég trú á því að við eigum eftir að gera miklu betur.