152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

blóðgjöf.

226. mál
[17:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég fagna, líkt og aðrir sem hér hafa tekið til máls, þeirri hreyfingu sem komin er á þetta mál, þökk sé fyrirspyrjanda og þökk sé ráðherra. En af því að við höfum búið við ákveðna afléttingartregðu undanfarna mánuði og vikur, og ræðum það á öðrum vettvangi, þá langar mig til að brýna hæstv. ráðherra til að fylgja þessu máli eftir og jafnvel ýta á að það raungerist fyrr en í mars eða apríl. Ég minni á að forveri hans lagði til breytingu á reglugerð í byrjun september. Það er nokkuð sem hingað til hefur getað gerst samstundis, jafnvel í óþökk okkar hér á þingi, að ráðherrar geti breytt reglugerðum. Að akkúrat þessi tiltekna reglugerð þurfi langan meðgöngutíma, heilan vetur, ég ætla að segja það hreint út, veldur mér ákveðnum áhyggjum. Ég óska þess að hæstv. ráðherra haldi þessu máli þétt upp að sér og sjái til þess að sú vinna sem hann telur að sé ólokið verði kláruð.