Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

framkvæmdaáætlun í málefnum barna.

[11:16]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa mjög svo góðu fyrirspurn og segja í fyrsta lagi varðandi stöðuna á BUGL að hún er óásættanlegt. Í lok síðasta kjörtímabils vorum við búin að vinna sameiginlega vinnu, félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, varðandi greiningu á þeim málum og biðlista almennt og ég og nýr heilbrigðisráðherra höfum rætt með hvaða hætti við förum inn í það mál. Ég hef fulla trú á því að hægt verði að ná mjög vel utan um þau mál, af því að þessi biðtími er algerlega óásættanlegur.

Varðandi fyrirspurnina sjálfa sem lýtur að nýrri farsældarlöggjöf og hvenær hún fari að skila árangri þá er það hárrétt hjá hv. þingmanni að hugsunin á bak við farsældarlöggjöfina er að grípa fyrr inn í til að draga úr þriðja stigs úrræðum og þeim þáttum. Ég verð að segja að ég er mjög óþolinmóður maður. Lögin tóku gildi 1. janúar og ég myndi gjarnan vilja að við gætum látið þetta allt saman taka gildi einn, tveir og þrír. Það fjármagn til að mynda sem rennur til sveitarfélaga, hluti af fjármagninu rennur til sveitarfélaga og hluti til ríkis, samningum sem tengjast því er lokið. Það er búið að ljúka útfærslu á því og nýbúið að klára þá skiptingu þannig að það rennur til sveitarfélaganna. Það er gríðarlega mikilvægt að fara í samtal við skólakerfið, leikskólakerfið og framhaldsskólana. Við erum byrjuð að ræða það mjög stíft núna við þá aðila sem þar eru en auðsjáanlega hefur Covid-faraldurinn talsverð áhrif vegna þess að það hefur ekki mikið annað komist að í skólakerfinu en að leysa dag frá degi úr málum vegna samkomutakmarkana. Væntingar mínar standa til þess að á þessu ári förum við að sjá ákveðinn árangur skila sér í því að við brjótum niður múra og getum gripið fyrr inn í og boðið upp á fyrsta og annars stigs úrræði. En við þurfum að vera meðvituð um að það mun taka þessa breytingu, sem þarf að teygja sig inn í alla anga í þjónustu við börn og ungmenni, (Forseti hringir.) þrjú til fimm ár að skila fullum árangri og það var markmiðið og uppleggið í lagafrumvarpinu þegar það var samþykkt (Forseti hringir.) hér síðasta vor.