Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. 145 dagar, fimm mánuðir. Það er tíminn síðan ungri konu var nauðgað á mjög ofbeldisfullan hátt eftir að hafa verið byrlað. 145 dagar síðan hún mætti í áfalli á neyðarmóttöku vegna kynferðisbrota. 145 dagar síðan henni var tjáð að hún væri með eina alvarlegustu áverka eftir slíkt brot sem sést hefðu á neyðarmóttökunni. Hún treysti sér ekki til að kæra brotið sama dag en fékk úthlutað tíma í skýrslutöku þremur dögum eftir brotið. Nú, 145 dögum seinna, hefur gerandi ekki verið kallaður til skýrslutöku, gerenda hefur ekki einu sinni verið tilkynnt um kæruna og gerandinn hefur ekki hlotið réttarstöðu sakbornings. Ástæðan sem lögreglan gefur er tímaskortur og að þar sem brotið var tilkynnt þremur dögum eftir að það var framið þá flokkist það sem gamalt brot og fái því ekki forgang.

Þetta er sá raunveruleiki sem þolendur kynferðisbrota búa við. Fögur loforð um efndir eða áætlanir til að bæta hlutina breyta ekki miklu. Það er á ábyrgð okkar þingmanna að tryggja að það fjármagn og sá stuðningur sem þörf er á til að fyrirbyggja þennan raunveruleika sé sýndur í verki. 145 dagar af óvissu, 145 dagar af óréttlæti og 145 dagar af ótta.