152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka upphafsmanni þessarar umræðu fyrir hana. Ég held að enginn velkist í vafa um að það er heppilegast að kjósa að vori. Það blasir við. Auðvitað er hægt að útskýra það með einum eða öðrum hætti að þetta skipti ekki máli, fjögur árin klárist þegar þau klárist og það allt saman. En ef menn kæmu að hreinu borði þá væri kosið að vori, hvort sem það er fjárlagagerð, tækifæri nýrra þingmanna til undirbúnings eða hvað það kann að vera, allt ber það að sama brunni.

Það er líka annað sem gerist með haustkosningum sem þessum eins og þær áttu sér stað núna síðastliðið haust. Það er að fyrsta þing kjörtímabilsins verður hálfundarlegt í laginu. Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson kom inn á það að hluta í sinni ræðu. Við sjáum t.d. að nú er 1. mars en 31. mars er síðasti framlagningardagur mála. Málin sem hafa komið fram hingað til hafa verið meira og minna af gamla færibandi fyrri ríkisstjórnar. Þrátt fyrir það koma þingmenn stjórnarflokkanna upp í röðum og lýsa yfir fyrirvara við hitt og þetta sem lagt er fram. Þetta fyrsta þing er allt svona hálfundarlegt í laginu.

Mér er í sjálfu sér alveg sama þó að ríkisstjórnin komi sér sjálf í vandræði með þessu verklagi en þetta gerir okkur þingmönnum erfiðara um vik hvað aðhaldshlutverkið varðar. Þetta setur þingmálin í þá stöðu að vinnubrögð verða hroðvirknislegri. Tími í nefndum verður knappari en æskilegt væri og svona mætti lengi telja. Þannig að ég held að við ættum ekki að eyða tíma í það í þessari umræðu hvort það sé betra að kjósa að vori eða hausti. Það er algerlega augljóst að það er betra að kjósa að vori.