152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:38]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Lýðræðið á ekki að þjóna kerfinu, kerfið á að þjóna lýðræðinu. Í því felst að kerfið þarf að vera sveigjanlegt og geta brugðist við breyttum aðstæðum, aðstæðum sem við þekkjum hér á landi og vísa ég hér til fjölda alþingiskosninga áratuginn eftir hrun. Síðan þá hefur ýmsu verið komið til leiðar og sveigjanleiki í kerfinu verið aukinn og í samhengi þessarar umræðu þá á þetta ekki síst við um nýtt lagaumhverfi um opinber fjármál og langtímaáætlunargerð í tengslum við fjárlög sem eykur bæði fyrirsjáanleika og lipurð, líka þegar kemur að kosningum, líkt og hæstv. forsætisráðherra kom inn á í ræðu sinni. Það er viðtekin venja að líta á kerfi sem ósveigjanlegt og það skortir nýsköpunargetu og viðeigandi viðbrögð þegar óvæntir atburðir eiga sér stað. Við höfum innleitt ákveðinn fyrirsjáanleika í opinber fjármál með áætlunum til lengri tíma en við þurfum einnig að halda áfram að byggja undir sveigjanleika kerfisins á sem flestum sviðum. Það er lýðræðinu í hag að við séum í stakk búin að bregðast við ófyrirsjáanlegum aðstæðum.

Að því sögðu snúast kosningar ekki um fjárlagagerð eða önnur formsatriði. Kosningar snúast um undirstöður stjórnkerfisins okkar. Þær snúast framar öllu um lýðræði og í því ljósi eru ýmsir aðrir þættir en tímasetningar kosninga sem þarf að huga að. Mér finnst t.d. vert að nefna þörfina á því að efla kosningaþátttöku ungs fólks sem hefur farið dvínandi sé litið til kjörsóknar ungmenna í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum síðustu ára. Þetta er mér mikið hugðarefni en er efni í aðra umræðu.