152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á kosningalögum og lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka og það varðar viðmiðunardag kjörskrár og fleiri atriði. Frumvarpið er flutt af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Hér er um að ræða stutt frumvarp þar sem tekið er á nokkrum atriðum sem þarf að breyta í nýrri löggjöf, nýjum kosningalögum sem tóku gildi 1. janúar sl. Það eru lög nr. 112/2021. Með þeim lögum voru gerðar miklar breytingar á því fyrirkomulagi sem verið hefur á framkvæmd kosninga. Með lögunum var sett á fót sjálfstæð stjórnsýslunefnd, landskjörstjórn, sem nú hefur yfirumsjón með framkvæmd kosninga og kosningalaga í stað dómsmálaráðuneytisins áður. Ráðherra skipaði landskjörstjórn sem tók til starfa 1. janúar sl.

Því miður hafa komið í ljós, við undirbúning sveitarstjórnarkosninga sem fram fara 14. maí nk., nokkrir ágallar á lögunum sem óhjákvæmilegt er að lagfæra án tafar. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur nú þegar staðið fyrir og flutt frumvarp til breytinga á lögunum er vörðuðu íbúakosningar sem gengu mjög liðlega hér í gegnum þingið og þá var hægt að halda íbúakosningar í febrúarmánuði og þær voru nokkrar. En breytingarnar í þessu frumvarpi varða fyrst og fremst misræmi í dagsetningum sem væntanlega hefur orðið vegna skorts á samlestri texta þegar frumvarpið var afgreitt hér á hinu háa Alþingi.

Það þarf sem sagt að færa viðmiðunardag kjörskrár þannig að hann sé áður en framboðsfresti lýkur og það er mikilvægt þegar kemur að sveitarstjórnarkosningum því að kjörskrá þarf að liggja fyrir áður en framboðslistum er skilað en til þess að geta verið í framboði til sveitarstjórnar þarf viðkomandi að vera búsettur í sveitarfélaginu og auðvitað meðmælendur listans líka. Þannig þarf kjörskráin að liggja fyrir þegar framboðslistum er skilað inn. Þetta er eðlileg breyting og hér eru lagðar til lágmarkstilfæringar ef þannig má að orði komast á dagsetningum sem um er að ræða.

Í öðru lagi eru nokkrar lagfæringar þar sem málsliðir hafa fallið niður og tilvísanir eru ekki réttar.

Í þriðja lagi er lagt til í bráðabirgðaákvæði að heimilt verði, í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí nk., að senda atkvæðisbréf sitt sem greitt er utan kjörfundar áfram til sýslumanns í því umdæmi þar sem kjósandi telur sig vera á kjörskrá.

Í fjórða lagi er tækifærið nýtt til að fjölga þingsætum eða réttara sagt að jafna fjölda þingsæta á milli Norðvesturkjördæmis annars vegar og Suðvesturkjördæmis hins vegar í samræmi við auglýsingu landskjörstjórnar nr. 1108/2021 frá 1. október 2021. Þá verða þingsæti í Norðvesturkjördæmi 7 og þingsæti í Suðvesturkjördæmi 14.

Í fimmta lagi er smávægileg breyting í ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um lagaskil eftir að ný kosningalög hafa tekið gildi og útgáfu kjörbréfa af hálfu landskjörstjórnar verði hætt.

Fleiri eru breytingarnar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi ekki. Það varðar mestu að hnika til dagsetningunum þannig að ekki verði neinir meinbugir á því hvenær kjörskrá liggur fyrir og að hún liggi örugglega fyrir þegar framboðslistum er skilað inn og meðmælendalistum með þeim. Málið var rætt í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í síðustu viku og það var einróma niðurstaða nefndarinnar að flytja málið að beiðni dómsmálaráðuneytis þannig að þessar breytingar gætu væntanlega gengið fljótt í gegnum þingið og þessar lagfæringar gerðar á lagabálkinum sem hér var samþykktur í fyrra á hinu háa Alþingi og tók gildi um síðustu áramót.

Ég ætla þó að leyfa mér að segja það, frú forseti, að mér þykir miður hvað þessi tiltekt á þessum mjög svo mikilvæga lagabálki sem kosningalögin eru er orðin mikil. Þetta er í annað sinn sem nefndin, a.m.k. í minni formennsku, þarf að flytja frumvarp með þessum hætti. Okkur er ljúft og skylt að gera það en það minnir okkur á að huga mjög vel að frágangi og yfirlestri við lagasetningu og gæta að því að misræmi, sem hér hefur komið í ljós, verði ekki.