152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:25]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég lýsti í greinargerð efnahags- og viðskiptanefndar þeirri skoðun minni að ég væri hlynntur sölu á hlut í Íslandsbanka með ákveðnum fyrirvörum, m.a. að fjármunirnir yrðu nýttir til innviðauppbyggingar eða niðurgreiðslu skulda, en jafnframt yrði samkeppnisstaðan í málinu skoðuð. Það sem vekur mig til umhugsunar er það að í þessari greinargerð er talað um tillögu Bankasýslunnar, að selja þegar hagfelld og æskileg skilyrði séu fyrir hendi. Mér er spurn: Eru þessi hagfelldu skilyrði til staðar núna þegar Evrópa er á hliðinni út af stríði, verðbólgu? Ég átta mig bara ekki á því. Og Seðlabankinn átti að skoða og veita umsögn um jafnræði bjóðenda, fer það allt fram fyrir luktum dyrum? Hvernig sjáum við, almenningur og þingmenn, hverjir voru að bjóða? Og sátu þar allir við sama borð?