152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:40]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Kynheilbrigði er lýðheilsumál og ég held að allur þingheimur geti verið sammála mér um það. Í nýkynntri skýrslu alþjóðlegu rannsóknarinnar Heilsa og lífskjör skólanema, sem lögð hefur verið fyrir hér á landi frá árinu 2006, kemur fram, í síðustu könnun, að á meðal 15 ára krakka í Evrópu og Norður-Ameríku segist einn af hverjum fjórum strákum og ein af hverjum sex stelpum hafa stundað kynlíf. Þar kemur þó einnig fram að notkun getnaðarvarna hefur farið minnkandi síðastliðið ár sem er áhyggjuefni. Kynlíf án getnaðarvarna getur haft margar afleiðingar. Fjárhagslegar aðstæður geta komið í veg fyrir að ungt fólk noti getnaðarvarnir og þá sérstaklega dýrari gerðir sem teljast bera meiri árangur til lengri tíma. Ungt fólk á að eiga kost á því að nota getnaðarvarnir án þess að hafa áhyggjur af kostnaði. Suma mánuði getur komið fyrir að peningaskortur neyði ungt fólk til að hagræða. Þá eru getnaðarvarnirnar stundum teknar út og það bitnar á kynheilbrigði. Pillan, lykkjan, smokkar og hvaða getnaðarvörn sem verður fyrir valinu á að vera aðgengileg ungu fólki.

Svo má einnig nefna að greinilegur munur er á fjölda klamydíusmita fyrir og eftir 25 ára aldur samkvæmt þeim tölum sem eru á vefsíðu sóttvarnalæknis þar sem fjöldi tilvika er rakinn síðustu 20 ár. Við þurfum að huga að bættu kynheilbrigði þjóðarinnar. Því mun ég leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að gera getnaðarvarnir aðgengilegar einstaklingum undir 25 ára þeim að kostnaðarlausu.