152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:43]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Öruggur aðgangur allra landsmanna að læknisþjónustu eru grundvallarmannréttindi og undirstaða búsetuöryggis, að fólk lifi ekki í ótta um að þegar alvarleg slys eða veikindi ber að höndum sé því ekki að treysta að bráðaþjónusta lækna og hjúkrunarfræðinga sé til staðar innan seilingar fyrir byggðarlagið og öruggir sjúkraflutningar þegar líf og heilsa er í veði. Að fólk þurfi ekki að lifa í viðbótarótta um eigið líf, fjölskyldu, ástvina, vina, samstarfsfólks og samferðarfólks í gegnum lífið í samfélögunum okkar vegna þess að við höfum valið að búa í byggðarlaginu sem fóstraði okkur eða við kosið að setjast að til að búa okkur framtíð. Samt horfum við síendurtekið upp á byggðarlög sett í þessa stöðu, þessa óþolandi, ólíðandi stöðu í okkar ríka samfélagi þar sem þessi byggðarlög leggja sannarlega sitt af mörkum. Stundum fer betur en á horfist, eins og þegar vinnuslys varð í Grundarfirði fyrir skemmstu í ófærðartíð, en stundum ekki, með hræðilegum afleiðingum.

Mikið af heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni hefur verið hagrætt í burtu á undanförnum árum og sértækari sjúkrahús og bráðaþjónusta byggð upp á lykilsjúkrahúsum sem þjóna landinu öllu. Samhliða skyldi verða tryggt öryggisnet heilsugæslu og læknisþjónustu á landsvísu. Það hefur ekki gengið eftir. Fólkið sættir sig ekki við það, ekkert okkar á að sætta sig við slíkt. Haft var eftir ráðherra byggðamála í vikunni að ekki sé hægt að lofa sömu heilbrigðisþjónustu um allt land. Það er enginn að tala um það eða fara fram á slíkt. Íbúar á landsbyggðinni kalla eftir byggðajafnrétti og búsetuöryggi.

Ég kalla eftir því að innviðaráðherra, ráðherra byggðamála, og heilbrigðisráðherra setjist yfir og vinni hratt tillögur að aðgerðum, með hvaða hætti sé hægt að tryggja betur stöðuga viðveru lækna og hjúkrunarfólks í þeim byggðarlögum sem ekki njóta stöðugrar viðveru þeirra, hvort sem það er Grundarfjörður, Norðausturland eða önnur svæði sem verða að hafa trygga læknisþjónustu en hafa hana ekki í dag. Það þarf lausnir og aðgerðir strax. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)