152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:51]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í gær fór hér fram umræða um frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra um að fella nikótínvörur, nikótínpúða, undir lög um rafrettur. Með frumvarpinu er reynt að hafa vit fyrir fullorðnu fólki, m.a. með reglum um hvers konar bragðefni það getur valið og hvar það má stinga púða undir vörina. Við Íslendingar megum ekki kaupa vín á kvöldin, á sunnudögum og alls ekki í netverslun, nema auðvitað að það sé erlend netverslun. Við erum með ríkisútvarp og við erum með ríkisstyrktan póst. Regluverkið okkar og rekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu er að mörgu leyti allt of flókið. Eftirlitið er mikið og kröfur til aðila með afmarkaðan og einfaldan rekstur óhóflegar. Valdhafar hafa ríka tilhneigingu til að vilja stýra sem mestu, skipta sér sem mest af fólki, hafa vit fyrir því, setja reglur, gera meiri kröfur í stað þess að létta á. Allir eiga að vera bæði með belti og axlabönd, bæði bókstaflega og ekki.

Mér datt í hug, af því að við erum að ræða hér um störf þingsins, að koma hingað upp og reyna að hvetja kollega mína til að treysta fólki betur, treysta því til að ráða sér sjálft og bera ábyrgð á sér sjálft, auðvitað svo lengi sem maður gengur ekki á rétt annarra, hvetja þá til þess að einfalda reglur í stað þess að bæta í, að við pössum okkur á því að kaffæra ekki litla rekstraraðila í óhóflegum kröfum og eftirliti. Við gætum þá séð meira frelsi, minni sóun og meiri framleiðni.