152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

athugasemdir viðskiptaráðherra við fyrirkomulag bankasölu.

[11:13]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég hef farið yfir getur viðkomandi ráðherra verið með efasemdir og komið þeim vel á framfæri. Það er líka þannig að þessi varnaðarorð öll þurfa ekkert endilega að rætast. Ég hafði samt í huga að Ísland er mjög fámennt samfélag og þeir sem starfa á íslenskum fjármálamarkaði — það er bara býsna oft náið á milli viðkomandi aðila. Vegna þess hversu viðkvæmt þetta mál er þá var ég alltaf á þeirri skoðun að best væri að hafa þetta almennt, opið, að allir gætu tekið þátt og eftirmarkaðurinn myndi svo sjá um hver framvinda eignarhaldsins yrði.

Samstarf formanns og varaformanns Framsóknarflokksins er framúrskarandi og hefur verið alveg frá því að við vorum kjörin formaður og varaformaður. Þegar við erum að ræða þessi mál eru auðvitað ekkert allir alltaf sammála. Það bara kemur í ljós stundum hvernig hlutirnir þróast. Ég minni hv. þingmann á að Ríkisendurskoðun á eftir að skoða málið og Seðlabankinn líka. Þá mun koma í ljós hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis á milli söluaðila og hvernig þetta var allt. Ég held að það sé alveg ljóst að skýrari rammi þarf að vera um þessi mál og það kom í ljós. Ég held að við getum alveg sagt, án þess að álit Ríkisendurskoðunar (Forseti hringir.) og Seðlabankans sé komið, að það hefði mátt gera betur.