Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[22:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Seinni, herra forseti. Hv. þingmaður benti réttilega á áðan að flóttamenn í heiminum í dag eru 100 milljónir, áætlað, miklu meira en nokkurn tímann áður í mannkynssögunni. Þingmaðurinn sagði að þetta væri um 1% jarðarbúa. Til að setja þetta nú í samhengi við Jesú Krist er þetta helmingur af þess fjölda jarðarbúa sem var uppi þegar hann fæddist. Þannig að ég er alveg sammála hv. þingmanni um að auðvitað á Ísland við þessar aðstæður að gera meira en minna og opna faðminn og nýta sér það stórkostlega sem fjölmenningin hefur fært okkur á Íslandi; allt frá mat og menningu, til tónlistar og annarra hluta.

Í óundirbúnum umræðum við hæstv. forsætisráðherra í dag spurði ég hana hvort hún myndi beita sér fyrir því að þetta fólk sem hér hefur fest rætur, starfar og hefur jafnvel stofnað fjölskyldur og sem nú á að vísa til Grikklands, fái að vera hér áfram. Hæstv. ráðherra sagði að hún ætlaði að skoða hvað önnur Evrópulönd ætluðu að gera. Er hv. þingmaður sammála mér um það að hæstv. forsætisráðherra ætti upp á sitt eindæmi að geta sannfærst um að staðan í Grikklandi er óboðleg? Þar er ekki hægt að bjóða fólki upp á öryggi. Þar geta stjórnvöld ekki meira. Hæstv. ráðherra gæti leitað til Rauða krossins og annarra alþjóðastofnana til að sannfæra sig um þetta. Er hv. þingmaður sammála mér um að hæstv. forsætisráðherra sé að drepa málum óþarflega á dreif með því að segjast ætla núna í einhvern leiðangur til Evrópu til að heyra hvað þau ætli að gera í staðinn fyrir bara að Íslendingar taki ábyrgð í málinu?