Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

699. mál
[19:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er hjartanlega sammála, við þurfum að vinna vel saman. Við höfum áratuga reynslu af því að taka okkar þekkingu á sviði grænnar tækni og breiða hana út um heiminn. Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna, sem núna er undir GRÓ skólunum, er gott dæmi um það. Sameinuðu þjóðirnar voru að setja á stofn nýja umgjörð utan um nýsköpun á sviði loftslagsmála og það er ekkert land enn þá búið að bjóðast til að vera sá staður sem tekur við því. Þarna er tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Ég held líka að samflokkskona hv. þingmanns og núverandi hæstv. utanríkisráðherra sé mjög mikið fyrir nýsköpun. Ég tel að ef allir þessir þrír aðilar, ráðherra, ráðuneyti og nefndir sem tengjast þessum málum — ef við erum tilbúin að hugsa stórt rétt eins og fjárfestar, eins og Davíð Helgason og fleiri eru að gera, og sjá að Ísland er með tækifæri til að verða miðstöð þróunar, ef við hér á þingi tökum höndum saman, sem og ráðuneytin og vinnum með nýsköpunarheiminum þá getum við gert frábæra hluti fyrir hagkerfið hérna heima og fyrir umhverfið úti um allan heim. Við eigum að nota þessi tækifæri og ekki rífast þegar kemur að þeim málum heldur hugsa hvernig við getum unnið saman að því. Ég segi alla vega: Ég er tilbúinn. Og ég heyri að hv. þingmaður er tilbúinn.