Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:23]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að rétt sé að taka fram að í fyrra jukust ráðstöfunartekjur efstu tekjutíundanna á Íslandi tvöfalt á við allar aðrar tíundir í landinu, 52% aukning í fjármagnstekjum í fyrra, mesta aukning síðan árið 2007. Við hlustum hér ítrekað á málflutning samstarfsráðherra hæstv. fjármálaráðherra tala um mikilvægi þess að reka velferðarríki, skipta byrðunum jafnt en hér mætir hæstv. fjármálaráðherra með allt annars konar frumvarp.

Ég skil svar hæstv. ráðherra þannig að hann hafi vissulega sannfært samstarfskonur sínar í ríkisstjórn um ágæti sinnar leiðar, um ágæti þess til að mynda að ráðast ekki í skattlagningu þar sem bökin eru hvað breiðust. En kom þetta einhvern tíma til greina við vinnslu fjárlaganna; hvalrekaskattur, fjármagnstekjuskattur, álögur á stórútgerð sem sér nú fiskverð í hæstu hæðum út af stríði í Úkraínu á meðan heimilin í landinu finna fyrir verðbólgu vegna þess? Er þetta í vinnslu í fjármálaráðuneytinu? Verða einhverjar breytingar á kjörtímabilinu eða er þetta hart nei?