Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum í gegnum tíðina beitt þeirri aðferð að taka peninga þegar ríkissjóður hefur þurft á því að halda og það er gott fyrir efnahagslífið. Ég nefni sérstaklega stöðugleikaskattinn í því sambandi. Samfylkingin hafði reyndar boðað það að við myndum ekki losna út úr höftunum án þess að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Við höfnuðum því, við sögðum að aðrar leiðir væru færar. Við tókum rétt um 500 milljarða af kröfuhöfunum. Það væri hægt að kalla það ýmsum nöfnum. Við kölluðum það stöðugleikaskatt. Hér er spurt af hverju við tökum ekki hvalrekaskatt af fjármálafyrirtækjunum. Má ég benda á að við erum með ávöxtunarkröfu á Landsbankann og nýjasta uppgjör Landsbankans er bara langt undir þeirri ávöxtunarkröfu sem við höfum gert til bankans. Bankinn er ekki að skila þeirri afkomu sem ríkið gerir kröfu um sem eigandi. En vissulega hefur gengið ágætlega hjá fjármálafyrirtækjunum, það hefur gert það, og fjármálakerfið er að mestu leyti í eigu ríkisins sem aftur skilar sér í arðgreiðslum til ríkisins og háu söluandvirði.

Hér er spurt um sjávarútvegsfyrirtækin. Ég held að árið í fyrra hafi verið eitt af betri árum í íslenskum sjávarútvegi. Þá er ágætt að muna að sjávarútvegsfyrirtækin munu borga tekjuskatt af þeirri afkomu og veiðigjöldin eru afkomutengd. Ég ætla ekki að hafna því að halda áfram samtalinu um að þróa sjávarútvegskerfið á Íslandi, þar með talið gjaldtökuna, og reyndar er vinna í gangi hjá matvælaráðherra til að fara ofan í saumana á því. Við höfum gert breytingar, síðast hækkuðum við álagið á uppsjávartegundirnar og sú vinna mun halda áfram. Varðandi þá sem höfðu miklar fjármagnstekjur í fyrra þá er það fólkið sem er að borga þessa 16 milljarða sem við erum að fá umfram áætlanir á þessu ári. Þegar mikil umsvif eru á fjármálamörkuðum og miklar fjármagnstekjur verða til þá fáum við skattinn, 16 milljarða umfram áætlanir á þessu ári. Það skiptir máli.