Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég vildi gera hér að umtalsefni við hæstv. ráðherra þau áform sem birtast okkur í fjárlagafrumvarpinu um að auka gjaldtöku á rafmagnsbíla. Það hefur talsvert verið fjallað um þetta núna í umræðu um fjárlögin og eru menn að vísa svolítið til þeirra markmiða sem verið er að setja á Íslandi til orkuskipta í samgöngum. Þetta lítur auðvitað þannig út að þegar menn eru með niðurfellingar eða lækkanir á þessum ívilnunum og aukna gjaldtöku þá vinnur það eitt og sér í sjálfu sér gegn áformum um lægri verðbólgu. Ég skil hins vegar þörfina á því að fara að einhverju leyti að láta þá sem aka um á rafmagnsbílum taka meiri þátt í kostnaði við samgöngur, vegakerfið og allt það. Ég skil auðvitað hugsunin á bak við en ég hef ákveðnar efasemdir um þetta, að þetta sé kannski ekki alveg rétta leiðin. Mig langar að nefna í þessu samhengi ágæta grein sem Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, og Egill Jóhannsson, stjórnarmaður í Bílgreinasambandinu, skrifa á vefmiðil í dag. Þeir benda á að við erum langt frá því að ná markmiðum okkar þegar kemur að orkuskiptunum. Þeir taka það fram að stjórnvöld virðist vera að snúa af braut hraðra orkuskipti og eru þá að vísa í það sem ég er hér að tala um, gjaldtökuna og þessa lækkun á ívilnunum. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist þetta samræmast því tali sem heyrist oft og ekki síst hjá hæstv. ráðherra um að við þurfum að hraða þessum orkuskiptum sem mest og hvort þetta sé ekki ákveðið bakslag í því, jafnvel þótt menn vilji, eins og ég kom inn á hér rétt áðan, (Forseti hringir.) ýta undir það að þeir sem aka um á rafmagnsbílum taki þátt í kostnaði við vegakerfið og þann kostnað allan.