Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[19:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Við erum reyndar búin að taka þessa umræðu og umræðan hefur þróast mjög mikið, bæði hér inni og í samfélaginu. Fyrst þegar hv. þm. Halldóra Mogensen lagði þetta fram þá töldu margir hana vera bara kolklikkaða að vera að nefna þetta. Núna eru yfir 60% af fólki sammála því að fara þessa skaðaminnkunarleið þannig að umræðan hefur verið í gangi og hún hefur þroskast og hefur þróast. Við höfum skoðað meira af gögnum, við höfum fengið meira af umsögnum. Þurfum við virkilega að gera það 10–20 sinnum þangað til að við erum búin að ákveða okkur? Það er að sjálfsögðu eitthvað í þessu frumvarpi sem mætti betur fara og þannig er það með flest frumvörp sem koma hingað inn, það þarf að laga eitthvað í þeim. Ef við höldum að hv. þm. Halldóra Mogensen og starfsfólk Pírata og allir aðrir sem hafa hjálpað til við að búa þetta til, hafi náð að búa til hið fullkomna frumvarp þá tel ég að það muni ekki geta gerst, alveg sama hversu klár þau eru. En þetta er fyrsta skrefið. Ég hefði séð það í anda ef við hefðum fyrir 90 árum síðan farið í að móta heildarstefnu um það hvernig við ætluðum að hafa áfengismál. Ég held að ef við hefðum farið almennilega í það værum við sennilega enn þá að pukrast með áfengisflöskur hér og þar. En það sem ég sagði með stefnu og að móta hana, þá held ég bara að ef ríkisstjórnin þorir ekki (Forseti hringir.) þá þurfum við hér inni að þora að tala við hvert annað og þora að komast ákvörðun.