Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þeir sem lifa við fátækt lifa mun skemur en þeir efnameiri. Munurinn er frá fimm til sjö árum og bilið eykst. Veikt fátækt fólk fer ekki til læknis vegna þess að það hefur ekki efni á því og margir hafa ekki efni á að borga lífsnauðsynleg lyf sín í upphafi nýs greiðslutímabils lyfjakostnaðar. Hversu margir eru í röðum þeirra fátæku sem leita sér ekki læknishjálpar af því að viðkomandi hafa ekki efni á því að fara í dýrar rannsóknir til sérfræðings? Það er þjóðfélagi okkar til háborinnar skammar að fólk sé svo fátækt í boði ríkisins að það geti ekki leitað sér læknishjálpar vegna fjárskorts. Hversu margir fátækir verða fyrir líkamlegu tjóni, deyja jafnvel vegna fátæktar, vegna sjúkdóma sem auðvelt er að koma í veg fyrir? Veikt fólk, eldri borgarar og öryrkjar hafa ekki efni á læknisþjónustu og lyfjum vegna kostnaðar. Skelfing, lömun, verkir, þrálátir verkir, útbrot, svefntruflanir, svefnleysi, doði, framtaksleysi, persónuleikabreytingar, reiði, áhyggjur, fjármagnsáhyggjur — allt eru þetta afleiðingar þess að vera númer 595 í bið eftir aðgerð. Hinn veiki á að bryðja sínar sterku verkjatöflur og önnur lyf og þegja þangað til röðin kemur honum, fyrst á biðlista hjá sérfræðingi og síðan á biðlista eftir aðgerð. Veikt fólk er á biðlista svo vikum, mánuðum og árum skiptir og verður að gleypa þúsundir taflna, í lyfjavímu fyrir framan börnin sín, maka og ættingja, allt í boði ríkisstjórnarinnar. Það er grafalvarlegt mál að láta fólk grotna niður á biðlista og það er skylda okkar að aðstoða veikt fólk sem lifir á verkjalyfjum, bólgueyðandi lyfjum og öðrum lyfjum og þarf jafnvel að taka svefnlyf til að geta sofið fyrir verkjum. Það vill enginn verða dæmdur á biðlista fyrir það eitt að veikjast. Það bíða margir eftir aðgerðum í flestum flokkum aðgerða og flestir biðlistar eftir aðgerðum lengjast og lengjast. Biðlistar skaða fólk andlega og líkamlega svo það bíður varanlega skaða af. Og munið: Eitt barn á bið er einu barni of mikið. Semjum strax við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara og hættum strax að senda fólk til útlanda í dýrar aðgerðir. Eyðum biðlistunum.