Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Björgvin Jóhannesson (S):

Virðulegur forseti. Síðustu daga hefur skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka verið rædd fram og til baka og þykir mörgum nú nóg um. Ég ætla því ekki að verja frekari tíma í þá umræðu heldur koma inn á það sem gerðist í aðdraganda þess að Ríkisendurskoðun kynnti skýrsluna fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Nefndarmeðlimir fengu skýrsluna afhenta rúmum sólarhring fyrir fundinn sem trúnaðargagn — ég endurtek: sem trúnaðargagn. Einhvern veginn rataði skýrslan samt beint í fjölmiðla og er orðin fyrsta frétt tæpum sólarhring áður en til stóð að opinbera hana. En það hefur varla verið minnst á þennan leka og trúnaðarbrests hér í þingsal. Finnst hv. þingmönnum þetta í alvörunni eitthvað léttvægt mál, að trúnaðargögnum nefndarmanna Alþingis sé lekið beint í fjölmiðla? Mér finnst það alls ekki og myndi ekki vilja liggja undir grun sem nefndarmaður og hafa gerst sekur um slíkt athæfi. Að leka trúnaðargögnum í fjölmiðla finnst mér einfaldlega rof á drengskaparheiti þingmanna og klárlega ekki leiðin til að efla traust Alþingis og ekki veitir nú af. Við erum ekki að tala um einhverja handvömm eða kæruleysi. Þetta hlýtur að vera einbeittur brotavilji til þess eins að hafa áhrif á umræðuna og kasta rýrð á störf Alþingis. Við hljótum að geta gert betur en þetta.

Virðulegi forseti. Lekinn gengisfellir störf þingsins og sendir þau skilaboð út á við að okkur þingmönnum sé ekki treystandi fyrir trúnaðargögnum. Og ef hv. þingmönnum er alvara um að auka virðingu og traust Alþingis þá er nauðsynlegt að komast til botns í þessu máli.