Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

menningarminjar.

429. mál
[13:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta líka fína frumvarp. Ég staldraði í greinargerðinni við þetta með gaddavírsgirðingarnar. Ég verð viðurkenna það. Mér þótti afskaplega athyglisvert að innan skamms megi gera ráð fyrir því að fjöldinn allur af gaddavírsgirðingum verði hreinlega friðaður og verði ekki hægt að hreinsa upp þetta rusl ef frumvarp hæstv. ráðherra nær ekki fram að ganga. Ég veit það ekki, ég get engan veginn skilið þetta öðruvísi. Ég velti fyrir mér hvernig gaddavírshaugur lítur út eftir 100 ár ef enginn hefur hirt um að lagfæra þessar girðingar og undir hvað er hann að flokkast, þessi gaddavír? Flokkast hann undir mannvirki í skilningi laganna eða telst hann orðið til annarra fornminja eða hvað? Þetta þótti mér svolítið skemmtilegur vinkill á frumvarpinu og ég þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir þetta innlegg í greinargerðinni af því að það hvatti mig til að koma hingað upp í andsvar.